Wednesday, January 30, 2008

Eyrnaverkur, körfubolti og klipping

Jæja, það hefur lítið verið gert síðustu daga sökum lélegrar heilsu undirritaðrar. Ég náði mér í einhverja sýkingu í ytri hluta vinstra eyrans og hef verið álíka aum og ungabarn með miðeyrnabólgu. Þetta byrjaði fyrir þremur dögum og hefur farið versnandi síðan. Þegar ég átti í erfiðleikum með að koma hlustunarpípunni í eyrað til að byrja með og svo erfitt með að heyra nokkuð með henni þá ákvað ég að biðja um hjálp. Einn af íslensku læknunum skrifaði þá upp á sýklalyfja og steradropa sem ég (eða Einar) hef sett í eyrað síðasta rúma sólarhringinn. Ég sleppti vakt síðustu nótt og við Einar lágum heima í flatsæng fyrir framan sjónvarpið, ég rugluð af verkjalyfjum og hann með samúðarverki. Þetta var ágætist kvöld samt og við náðum að innbyrða aðeins af ís og nammi (og sérbakað vínarbrauð frá Copenhagen bakery hérna neðar í götunni!)

Einar og Bjartmar fóru og fundu sér körfuboltavöll í gær og keyptu að sjálfsögðu Boston Celtics körfubolta til að spóka sig með þar. Einar getur þá líka smellt sér í Garnett treyjuna sem mamma keypti handa honum í Boston.Þeir fóru svo ásamt Sirrý og keyptu tennis spaða og spiluðu þau þrjú tennis í gær (ég lá heima umvafin parkódín forte blíðu á meðan)

Í dag fór ég svo loksins aðeins út og við keyptum áttavita og fjallgöngupoka handa Sid og ætlum að senda honum þetta ásamt All Blacks rugby treyju. Hann verður þá fullbúinn fyrir Esjugöngu í sumar og getur kannski æft sig í hlíðunum þarna í kringum húsið þeirra í LA. Mér skildist á mömmu og pabba að hann ætlaði að eyða helginni með þeim og ef ég þekki þau rétt þá verður örugglega stuð fyrir hann.

Við Einar keyptum okkur létta gönguskó í dag afþví að við höfum áhuga á að ganga á meðan við erum hérna. Ég hef lengi haft áhuga á því og varð himinlifandi þegar Einar nefndi það að hann hefði kannski bara áhuga á því líka! Það var nú ekki verra að kaupa þetta hér, talsvert ódýrara en heima.

Síðustu daga hefur hárið á Einari fengið sjálfstæðan vilja en hann hefur nú oft orðið hárprúður mjög þegar líður að klippingu. Þar sem við höfum endurtekið rekist á unga menn hér með sítt að aftan og krullað skott jafnvel aftan á hnakkanum var Einar orðinn hálfsmeykur við að fara í klippingu. Við ákváðum því þegar við komum heim áðan að taka fram skeggklippurnar og...... jamm þið giskuðuð rétt, við rökuðum á honum höfuðið! Við settum klippurnar nú bara í 1,8 cm og hann er svona líka myndarlegur eftir þessa snyrtingu (eins og alltaf svo sem!)

Setjum inn nokkrar myndir (sem virðast vera að mestu af óhollum mat....)Ein af kvöldmáltíð sem Einar eldaði um daginn, ein sérstaklega tileinkuð Margréti systur minni, ein af vínarbrauðinu, ein handa mömmu og pabba af Einari á leiðinni í körfubolta og svo auðvitað ein af nýju klippingunni....

Kv. Guðrún og Einar

2 comments:

Anonymous said...

Æ,æ, láttu þér batna Guðrún mín:-)
Þú gleymdir að tileinka ömmu vínarbrauð, það náttúrulega gengur ekki:-)
Stórhríðarkveðjur frá Húsavík.
Bilda.

Anonymous said...

Hvaða vesen er á þér að vera veik í útlöndum!!! Það er alveg bannað u know ;)

Verð annars að segja að ég hef bara aldrei séð þig Guðrún mín svona svakalega brúna og sæta!!! Þið eruð alveg ótrúlega útitekin og flott bæði tvö! Greinilegt að veðráttan hinum megin á kúlunni geri meira jákvætt fyrir útlitið en snjórinn hérna á klakanum....maður verður bara nett öfundsjúkur og rúmlega það ;)

Láttu þér annars batna sæta! Ótrúlega gaman að skoða myndirnar ykkar og lesa bloggið og sjá hversu vel þið eruð að njóta lífsins þessar vikurnar. Hafið það svaka gott !
Knús
Svanhvít

heimsóknir