Góðan dag
Við byrjuðum þennan fallega sunnudag á því að hitta Sirrý og Bjartmar í hádegismat á djass klúbbi hérna rétt hjá okkur en þar er spilað live funk á sunnudögum. Ég fílaði mig vel þar, þau hin sem sátu með mér við borðið tjáðu sig svo sem lítið um tónlistina. Einar spurði reyndar einu sinni hvort þeir væru búnir að vera að spila sama lagið í klukkutíma.... ;) Spurning hvort þau verði tilbúin að mæta aftur í næstu viku.
Eftir hádegismatinn fórum við Einar svo í smá fjallgöngu til að vígja nýju gönguskónna. Við gengum upp fjallið þar sem við fórum upp með kláfnum um daginn og var þetta hin besta ganga. Það tók reyndar aðeins á þar sem það var 25 stiga hiti, heiðskýrt og þessi líka fína sól til að ylja okkur. Þetta var ansi brött ganga en við vorum svona 35 mín að ganga upp. Þessi leið liggur á milli Christchurch og Lyttleton en áður en lagður var vegur yfir til Lyttleton var þetta eina leiðin á milli og gengu þeir sem námu land hér í Christchurch yfir þessa hæð frá höfninni í Lyttleton með allan farangurinn sinn. Við neitum þess vegna að viðurkenna að þetta hafi tekið nokkuð á ;) Þetta er annars ca 310 m upp á við. Skórnir voru léttir og góðir og eyrað var til friðs :)
Á föstudagskvöldið fórum við út að borða með Sirrý og Bjartmari og fengum okkur steik að borða. Við urðum fyrir talsverðum vonbrigðum þar sem steikurnar voru allar ansi hressilega steiktar og samandregnar þegar við fengum þær. Svipurinn á honum Einari mínum var óborganlegur þegar þjónninn skellti á borðið fyrir framan hann pínulitlum, samandregnum skósóla. Honum þykir ekkert leiðinlegt að borða góða steik! Við reyndum að skila þessu þar sem við höfðum öll pantað steikur á bilinu medium rare til medium. Okkur var þá tilkynnt að ef við vildum endilega fá nýjar steikur þá tæki það 45 mín og að veitingastaðurinn væri eiginlega að fara að loka. Þannig að við máttum fá frían desert eða drykk en í raun ekki nýja steik. Hann Danni hefði nú reddað nýrri steik á örfáum mínútum, hvað sem klukkan væri orðin...... Ekki meira um það.
Við Sirrý vorum svo á vakt í gær sem var mjög fínt. Ég eyddi stórum hluta af vaktinni að sauma sár í hársverði, tæplega 30 spor en það sem gerði þetta nú skemmtilegt var allt síða, dökka, krullaða hárið sem flæktist fyrir mér. Þegar ég var svo búin var mér bent á að yfirleitt væri svona bara heftað hér.... Hvaða hvaða... Eftir vaktina hittum við Einar og Bjartmar í drykk og við Sirrý fengum okkur vatnsmelónu og chilli martini sem var mjög góður.
Það verður svo líka að nefna það að við Einar fórum í minigolf í gær.... og Einar fór tvisvar sinnum holu í höggi!!! Það kom loksins að því :) Ég var ekki langt á eftir honum, í þetta skiptið munaði fjórum höggum!! Spurning hvort við séum eitthvað að skipta um hlutverk.... Ég vinn næst!! Ég óska Einari samt formlega til hamingju með þetta afrek, sérstaklega þar sem hann skuldar mér tvo bjóra!! Þú þarft að borga þeim sem spila með þér þegar þú ferð holu í höggi bjór.... Það er líklegast þess vegna sem Einar fer bara holu í höggi þegar við erum bara tvö!
Okkur er svo boðið í mat í kvöld hjá........ já, Sirrý og Bjartmari!!
Vonum að þið hafið það sem best.
.jpg)
.jpg)
.jpg)
.jpg)
7 comments:
Sæll vinur :)
Þvílík ævintýraveröld sem þetta land virðist vera, og myndirnar eru alveg frábærar!
Það er greinilega mjög gaman þarna hjá ykkur og maður bara hálf-öfundar ykkur af því að vera þarna úti ("hálf" skal lesið sem "alveg grænn").
Nýja Sjáland er klárlega komið á óskalistann yfir lönd til að heimsækja...reyndar inniheldur listinn meiripart hnattarins okkar en Nýja Sjáland er ofarlega á listanum :)
Bestu kveðjur til ykkar skötuhjúanna héðan frá klakanum (c.a. -10°C), og haldið áfram að njóta lífsins.
Raggi GOB
Gaman að þessu.
Hér er mikið vetrarríki þessa dagana og við ekki rauð í framan (eins og sumir)af sól og sumri heldur hríðarkófi!
Bilda.
Snilldarmyndir!!
Ein spurning...hvernig í fjandanum virkar þessi mynd á toppi síðunnar hjá ykkur?? Síðast þegar ég vissi var Guðrún ekki risi og Einar midget en maður veit aldrei hvað gerist í heiminum.....Við Kolli erum allavega búin að vera að deila mikið um hvernig þessi mynd virkar og mig dauðlangar að fá að vita hvort okkar hefur rétt fyrir sér ;)
Kv. Svanhvít og Kolli
25 stiga hiti það er bara næstum eins og hér! Ég fór á skíði á föstudaginn í bláfjöllum og hitamælirinn í bílnum sagði 23stiga frost á bílastæðinu!! það var varla hægt að renna sér. Enda er ég aumur í hálsinum og með kvef núna:(
kv. Gauti
Ég veit ekki hvað aðrir sem kommenta hér eru að tala um, það er hið besta veður hér og allt frábært. Ekki alkul né vonleysi, neineinei! Svo finnst mér skemmtilegt hvernig "The Vein" (vísa í malignant forehead veinal dilation syndrome, næsti fundur félagsins er heima í Ljósó um helgina...) tókst að troða sér með á fínu karfaroða-myndina :D
Frábært hvað þið eruð dugleg að blogga, me loves to live vicariously these dayses... Ykkar er sárt saknað hér heima! :)
Hæ.. alltaf jafn gaman að lesa þetta blogg ykkar! allt gott að frétta héðan.. bolludagur í dag og saltkjöt og baunir hjá sólu á morgun!
heyrumst elskurnar..
margrét
Jamm ... það er nú brjálað vetrarveður hér líka og allir að biðjast afsökunar á því: Hitinn iðulega bara um 10 stig og stundum m.a.s. haugarigning. T.d. í gær, sunnudag, þegar við fórum með Sid í Wild Animal Park. Það stóð til að blogga og setja einhverjar myndir inn þar, því það hefur legið dálítið niðri upp á síðkastið. En þá lá íslenska bloggvélin niðri. Þeir lofa að hún verði í lagi á morgun (ætli það sé ekki hinn daginn á Nýja Sjálandi ...)
Post a Comment