Við Sirrý mættum brattar snemma í gærmorgun til að hefja vinnu við rannsókn sem við ætlum að hjálpa til við hérna úti. Það verður að viðurkennast að maður var heldur ánægður með sig í morgunsárið að rölta á spítalann til að vinna (án þess að hafa fengið leiðbeiningar um það hvenær við ættum að mæta). Þegar við komum á staðinn var heldur rólegt yfir sjúkrahúsinu en við kipptum okkur svo sem ekkert upp við það. Við vorum auðvitað mættar svo snemma að það var svo sem ekki skrítið að það væri ekki búið að opna bókabúðina og svona.... En við drifum okkur inn í lyftuna til að komast upp á bókasafn en eitthvað gekk nú brösulega að fá hana til að fara af stað blessaða. Við veifuðum og veifuðum pössunum okkar sem eiga að gefa okkur aðgang en ekkert gerðist nema bara að lyftan lokaðist og við stóðum inni í henni, án þess að hún færi nokkuð. Við komumst að lokum út úr lyftunni og ákváðum að "skokka" bara upp á 6. hæð. Þegar við komumst loksins þangað, án þess að blása úr nös, var allt harðlæst. Það var ekki fyrr en þá að við áttuðum okkur á því að það var Waitangi Day, sem er víst svona 17. júní hér og þá er allt lokað. Við máttum því arka heim á leið aftur, frekar sárar með árangurinn. Við byrjuð þá bara á þessu seinna.
Í gær fórum við Einar og Bjartmar á æfingasvæðið og slógum fötu af boltum hvert (það eru 55 golfkúlur í hverri fötu). Það gekk bara ágætlega og Einar var þolinmóður eins og alltaf við að leiðbeina okkur hinum. Það sem var nú ekki leiðinlegt við þessa ferð var að ég eignaðist fyrsta parið mitt af golfskóm. Ég hef ekki verið þekkt fyrir að vera leið yfir því að eignast nýja skó en þetta var sérstaklega skemmtilegt. Það hefur ekki þótt ástæða til að kaupa golfskó handa mér hingað til (skv. sumum sem vita meira um golf en ég) en nú er tíminn kominn! Eftir þetta fórum við svo í mini-golf þar sem munur á leikmönnum var aðeins minni :)
Í gærkvöldi fórum við út að borða á frábærum mexikönskum veitingastað sem heitir Mexican Cafe. Þar var, án efa, stærsta tequila úrval sem við höfum séð og settum við inn mynd af barnum og svo tequila úrvalinu. Við gerðumst nú ekki svo fræg að bragða neitt af þessu almennilega en fengum okkur saman margaritu til að smakka smá.
Í dag fórum við í bíltúr í Hanmer Spring sem er ansi huggulegur staður norð-vestan við Christchurch. Þarna eru svona náttúrulega hitaðar laugar og spa meðal annars og svo hinn fínasti golf völlur. Það var nú heimilislegt að finna hveralyktina úr laugunum þarna ;) Einar fór og spilaði 18 holur á golfvellinum og ég labbaði með í sólinni og hitanum (og prófaði mig áfram með göngulag í nýju skónum!) Við fórum svo og hittum Sirrý og Bjartmar í spa-inu, lögðumst í pottanna og sleiktum sólina í smá stund. Við vorum nú ekki lengi þarna sem þau voru nú orðin hálf rúsínuleg af því að liggja í baði á meðan við vorum í golfinu :)
Um helgina eru svo vaktir, lestur og golf æfingar. Það getur verið að við förum og horfum á endann á Coast-to-coast keppninni en þetta er heljarinnar keppni sem byrjar á vesturhluta suður eyjunnar og endar hérna á austur ströndinni. Keppnin byggist upp af 140 km á hjóli (á mismunandi stöðum í keppninni, skiptist upp í 55 km, 15 km og 70 km), 36 km hlaupi (þar með talið 33 km fjallahlaupi sem er ansi þungt) og svo 67 km á kayak í gegnum annars stigs flúðir og gljúfur. Keppendur geta valið um að gera þetta á einum degi eða tveimur. Þetta er mjög vinsæl keppni og fólk þyrpist hingað frá hinum ýmsu löndum til að vera með. Íslenski læknirinn sem hjálpaði okkur að komast hérna út og konan hans taka til dæmis þátt í ár.
Þar til næst :)
Guðrún og Einar
.jpg)
.jpg)
.jpg)
.jpg)
.jpg)
.jpg)
.jpg)
.jpg)
.jpg)
.jpg)
4 comments:
til hamingju með nýju skóna vá alltaf gaman að fá nýja skó
kv úr snjónum
GSM
Bíddu, bíddu, bíddu!!! þarf ekki að vökva þennan golfvöll eitthvað betur Einar?
Er eins vökvakerfi hjá þeim og okkur? (haha hóst! haha)
Hérna erum við Tinni hætt að komast í skólann eða bara út úr húsi vegna veðurs! Hann vill varla fara út að pissa svo ég var að spá í að kenna honum á klósettið ;o)
Til hamingju með skóna Guðrún tvenn pör komin - þetta líkar mér!
oh þú ert að verða svo pro í golfinu:-)við verðum að fara hring þegar þú kemur heim (hljómaði svaka golfaralega....erþaggi:-)
Þemað hérna núna er SNJÓR...
Ég átti að mæta í próf í gærmorgun (fimmtudag), ég hentist út í ófærðina og festi bílinn um leið....
Björgunarsveitin ýtti mér út úr bílastæðinum heima hjá mér, það var stungið upp á því að ég væri bara heima....NEIBB það er próf, maður þarf að mæta...
Ég hringdi eitt símtal þegar ég var komin á vesturlandsveginn til að láta vita ég væri sein og þá var búið að aflýsa öllu saman og mér sagt að snúa við og hundskast heim í þessu geðveika veðri....
....allavega við söknum ykkar drífið ykkur að koma heim og í guðanna bænum takið sól með
ykkur:-)
Frábært! var að fá uppdeit á skóparafjöldakaupum Guðrúnar og það eru víst helmingi fleiri en ég hélt - sem er bara frábært!
Einar - ekkert kvart, stelpur þurfa að eiga skó! og það mörg pör ;o)
Post a Comment