Jæja þá heldur ferðasagan okkar áfram!
Í leiðinni frá Christchurch til Abel Tasman komum við líka við í Picton þar sem við gistum á hosteli en ferjan sem gengur á milli eyjanna fer einmitt á milli Picton og Wellington. Við fórum nú ekkert yfir á norðureyjuna samt í þetta skiptið. Frá Picton keyrðum við svo til Nelson þar sem við kíktum aðeins í búðir, börðum raunverulega Lord of the Rings hringinn augum og röltum á ströndinni. Við borðuðum rosalega góðan mat þá um kvöldið en hann þurftum við að elda sjálf á heitum steini sem var settur á borðið fyrir framan okkur. Við fengum okkur nautasteik, risarækjur og hörpudisk (misjafnt hlutfall á fiski og kjöti á milli manna, sumir fengu sér bara stærri steik og slepptu fiskinum....) Við vorum svo sótt til Nelson af kayakfyrirtækinu rétt fyrir sjö morguninn eftir.
Eftir kayakferðina keyrðum við svo niður vesturströndina. Við byrjuðum á því að skoða mjög flottan gamlan helli sem innihélt bein Moa fugls sem voru ansi áhugaverð (stór fugl þar á ferð!) Við gistum svo á mjög áhugaverðu hosteli um nóttina rétt við Westport sem notaði eingöngu sólarorku til að fá rafmagn. Daginn eftir fórum við í aðra hellaferð. Í þessari ferð gengum við fyrst í um tvo tíma um hellakerfið og skoðuðum okkur um. Í síðasta hluta hellisins voru ljósin slökkt og við tóku litlir ormar sem glóa með bláu ljósi og lýstu upp þak hellisins eins og stjörnur á himni. Ótrúleg sýn. Til að koma okkur út úr hellinum skelltum við okkur á stórar slöngur og létum ánna bera okkur áfram, niður léttar flúðir meðal annars. Frábær skemmtun.
Seinna um daginn kíktum við á Pancake Rocks og gistum svo á leiðinni í mjög huggulegum litlum sumarbústað sem við fengum á síðustu stundu (Íslendingarnir alltaf snemma í að panta sér gisting!)
Við enduðum ferðina svo á því að keyra í gegnum Arthurs Pass sem er einnig þjóðgarður. Í Arthurs Pass fórum við í göngu upp að Devil´s Punchbowl sem er mjög fallegur foss. Þar sem við vorum svo sérstaklega hress eftir þá göngu ákváðum við að smella okkur bara í aðra fossagöngu en fundum reyndar aldrei neinn almennilegan foss þar (kannski maður hafi aðra hugmynd um fossa en fólk hér....) Á þeirri leið hittum við samt lítinn skemmtilegan fugl sem hafði ótrúlegan áhuga á okkur og ákvað að smakka aðeins á fingrinum á Einari þegar honum bauðst tækifæri.
Frá Arthurs Pass keyrðum við svo aftur til Christchurch.
Hér á eftir eru nokkrar myndir úr ferðinni, takið eftir hressa liðinu sem ferðaðist með okkur! Vúhú, partí bíll! Annars er kennsla í fyrramáli, klukkan hálf átta. Best að drífa sig í háttinn.
Guðrún og Einar
2 comments:
Mmmmmmmm, flottur kaffibolli - væri til í einn svona alvöru!
Já, þótt það hafi kannski einhverjir sofnað í bílnum hljóta allir að hafa vaknað í þessu vatnssulli. Var þetta ekki svakalega blautt og kalt?
Post a Comment