Monday, March 17, 2008

Fiordland á kayak

Jæja, þá er það nýjasta ferðasagan.
Við lögðum af stað héðan frá Christchurch eftir kennsluna síðasta þriðjudag en komum reyndar við í hádegismat og kvöddum Sirrý og Bjartmar sem voru að leggja af stað í ferðalag um norður eyjuna áður en þau fara heim. Við borðuðum á kaffihúsi sem heitir Picasso cafe (minnir mig) en þar voru sætin öll klósett ;)

Við brunuðum svo í suðvestur og komum til Te Anau eftir ca 9 klst keyrslu. Í Te Anau gistum við á dádýrabúi og komumst að því um nóttina að þessi dýr baula ótrúlega hátt! Við vöknuðum á miðvikudagsmorgunin rétt fyrir klukkan sex og brunuðum í vesturátt til Milford Sound. Við eyddum deginum þar á kayak í hóp með leiðsögumanni og 6 öðrum. Við fengum frábært veður og töldum okkur bara ótrúlega heppin þar sem það rignir 3 daga af 4 í Fiordland meiri hlutann af árinu!

Við gistum svo aftur á dádýrabúinu og létum gólin í dýrunum svæfa okkur.
Á fimmtudeginum vöknuðum við svo klukkan hálf sex og lögðum af stað inn í bæinn í Te Anau. Við skildum bílinn eftir á sérstöku bílastæði þar sem fylgst var með honum (fólkið sem bar ábyrgð á þessu bílastæði bjó á því og stofugluginn þeirra vísaði út á stæðið!) Við vorum síðan sótt þangað af leiðsögumanninum okkar og sóttum restina af hópnum okkar með henni. Við keyrðum svo öll saman til Manapouri þar sem við lögðum af stað í bátsferð yfir Manapouri vatnið sem var um klukkustund á lengd. Frá Manapouri vatninu liggja tvö stór rör og í gegnum þau bunar vatn þaðan yfir í Doubtful Sound fjörðinn. Með þessu vatni er búin til orka en 90% hennar er notuð til að skaffa álveri rétt hjá orku. Restin fer svo til almennings. Fyrra rörið og virkjunin voru byggð á sjöunda áratugnum og eins og gefur að skilja eru mjög skiptar skoðanir á þessu hér á landi (sérstaklega þar sem meiri hluti orkunnar fer í álverið). Seinna rörið var svo sett upp árið 2002.
Vegna þessa flæðis frá vatninu yfir í Doubtful Sound er ansi þykkt lag af fersku vatni sem liggur ofan á saltvatninu þar og gerir vatnið ískalt.

Eftir bátsferðina yfir Lake Manapouri vorum við svo flutt í lítilli rútu yfir hæðina og yfir í Doubtful Sound. Við skelltum dótinu okkar í kayakanna, skiptum yfir í blautbúninga og lögðum af stað í seinni kayakferðina okkar. Við rérum í um 5 - 6 klukkustundir fyrri daginn og gistum í tjöldum um nóttina. Sandflugurnar tóku vel á móti okkur hér eins og í Abel Tasman en við töldum okkur vera ansi vel undirbúin núna þar sem við vorum með skordýravörn með okkur. Við mökuðum henni vel á ökkla, handleggi og hálsinn og vorum frekar ánægð með okkur. Það fór nú ekki betur en svo að þegar við skiptum úr blautbúningunum yfir í venjulegu fötin um kvöldin (sem tók örfáar mínútur) réðust þær allsvakalega á okkur og náðu að þekja mann ansi vel með bitum á kroppnum og aðeins á andlitinu. Kláðastríðið byrjaði svo aftur um nóttina.

Seinni daginn rérum við áfram um Doubtful Sound og á enduðum svo aftur þar sem við byrjuðum daginn áður. Veðrið lék við okkur eins og í Milford Sound og við sáum ekki einn regndropa sem þykir stórmerkilegt. Landslagið þarna í Fiordland er hreint út sagt ótrúlegt og við setjum inn nokkrar myndir til að þið fáði einhverja hugmynd um það hversu stórfengleg fjöllin eru. Við rákumst á mörgæsir, seli, fiska sem stukku uppúr vatninu og fullt af fallegum fuglum.

Í lok seinni dagsins í Doubtful Sound fórum við svo sömu leið til baka með rútunni og bátnum og náðum í bílinn okkar í Te Anau. Þaðan brunuðum við yfir í Queenstown þar sem við gistum um nóttina.
Morguninn eftir vöknuðum við snemma og Einar dreif sig í golf á einum besta golfvellinum hér á Nýja Sjálandi. Ég tók hlutverk mitt sem golfekkja mjög alvarlega og byrjaði á því að keyra inn í bæinn og ná mér í stóran Starbucks bolla. Eftir það fór ég í þvílíka dekur fótsnyrtingu á golfvallarsnyrtistofunni og endaði á kaffihúsi vallarins með hvítvínsglas, risastóran ostabakka og Vogue og beið mannsins míns eins og hinar kerlurnar! Frekar fyndin upplifun :)

Við keyrðum svo aftur til baka til Christchurch og sofnuðum sæl og glöð á laugardagskvöldinu. Það verður að viðurkennast að við sváfum aðeins lengur en til sex á sunnudagsmorguninn eftir þetta allt saman.
Ég kláraði rannsóknarvinnuna mína á sunnudaginn og á núna bara eftir að taka niðurstöðurnar aðeins saman. Eyddi síðan deginum í dag á sjúkrabílnum. Það er svo síðasti dagurinn minn á slysadeildinni á morgun en Einar keppist við að klára helstu vellina hér á þessum síðustu dögum.

Við erum annars farin að hlakka ansi mikið til að koma heim, við lendum 26. mars í Keflavík :)
Guðrún og Einar
















5 comments:

Anonymous said...

vá þetta hljómar sem rosa góð lokaferð fyrir heimferð ég hlakka líka voða til að sjá ykkur ég panta fótabað og göngutúr með Tinna og Krumma eftir heimkomu.
knús frá landinu kalda
kv
Guðrún Hemmi og Krummi

Kaffikella said...

Var ekki planið að koma heim í byrjun apríl, eða var ég að misskilja?

Kaffikella said...

úpps ! þetta leit frekar illa út - við hlökkum sko alveg til að sjá ykkur! :o)

Anonymous said...

Þrúður, ekki vera að gefa þeim einhverjar hugmyndir!!! ahhaha... djók... :) hún vill bara hafa tinna lengur.. :)
en vá þetta hljómar ekkert smá skemmtilegt allt saman!!! þið eruð heldur betur búin að upplifa hitt og þetta í þessari ferð ykkar...
en þið skuluð samt bara koma heim, það er fullt af allskyns upplifunum hérna líka... :D
hlakka til að sjá ykkur..

Kaffikella said...

Já Margrét mín það er spurning hvort að Tinni skilar sé nokkuð í Mosfellsbæinn aftur ;o)
Hann hefur það svo kósý hérna í þorpinu!

heimsóknir